Fara í efni  

Tímamót. Volvo rafmagnsvörubílasýning og reynsluakstur

Það verða stór tímamót hjá Velti, Volvo atvinnutækjasviði Brimborgar, og tímamót á Íslandi þegar fyrstu 14 rafmagnsvörubílarnir og þeir fyrstu á Íslandi verða til sýnis og boðið verður upp á reynsluakstur, en bílarnir eru allir frá alþjóðlega vörubílaframleiðandanum Volvo Trucks.

 • Sýningarstaður: Hádegismóar 8, 110 Árbæ
 • Sýningartími: Laugardagurinn 29. apríl frá 10:00 – 16:00

Smelltu og kynntu þér Volvo rafmagnsvörubíla

Ökupróf: Gild, aukin ökuréttindi, eru nauðsynleg til að fá að reynsluaka. Þau sem ekki hafa aukin ökuréttindi fá að sitja í með starfsmanni Veltis. Börn skulu vera í fylgd með fullorðnum.

Smelltu til að bóka í reynsluakstur

Þessi tímamót ryðja brautina fyrir sjálfbæra þungaflutninga á Íslandi með það að markmiði að allir þungaflutningar verði á íslensku rafmagni. Það styður við endurreiknaða raforkuspá Orkustofnunar frá apríl 2023 þar sem gert er ráð fyrir að árið 2040 verði öll nýskráð ökutæki, meðal annars vörubílar og rútur, rafknúin.

Þung ökutæki vega mikið í losun koltvísýrings

Losun frá vegasamgöngum er 31% af heildarlosun sem er á beinni ábyrgð Íslands. Ef markmið stjórnvalda um 55% samdrátt í heildarlosun árið 2030 miðað við árið 2005 er heimfært upp á vegasamgöngur þá þarf losun frá þeim að fara úr 775 þús tonnum af koltvísýringsígildum (tCO2í) í 349 þús. tonn árið 2030. Til að ná markmiði um jarðefnaeldsneytislausar vegasamgöngur í samræmi við markmið stjórnvalda um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040 þá má ekkert jarðefnaeldsneytisökutæki vera í landinu í lok árs 2039.

Í dag eru 278 þús ökutæki í landinu, þar af um 18 þús. rafknúin og um 260 þús. jarðefnaeldsneytisökutæki. Af þessum jarðefnaeldsneytisökutækjum teljast 4.437 þeirra í árslok 2022 til þungra ökutækja sem er 1,7% af jarðefnaeldsneytisökutækjum landsins. En losun þessara ökutækja er áætluð 128,8 þús. tonn af koltvísýringsgildum árið 2022 sem nemur 14,6% af heildarlosun frá vegasamgöngum. Það er því til mikils að vinna að rafvæða þungaflutninga.

Leiðtogar í orkuskiptum í atvinnulífinu stíga stór skref

Leiðtogar í orkuskiptum, Ölgerðin, Garðaklettur, Eimskip, Íslandspóstur, GS Frakt, Íslenska gámafélagið, Ragnar og Ásgeir, Húsasmiðjan og Steypustöðin fá afhenta fyrstu rafmagnsvörubílana. Þessi fyrirtæki starfa í fjölbreyttum geirum atvinnulífsins og eiga það sameiginlegt að vera öflugir leiðtogar í orkuskiptum á Íslandi.

Rafmagnsvörubílar fáanlegir í flestar tegundir verkefna

Volvo Trucks, fyrstur alþjóðlegra vörubílaframleiðanda, hefur nú hafið fjöldaframleiðslu á rafknúnum vörubílum, allt að 50 tonn að heildarþyngd. Volvo Trucks býður nú upp á breiðustu vörulínuna þar sem allar gerðir, FL, FE, FM, FMX og FH, vörubíla frá Volvo Trucks fást nú í rafmagnsútgáfu, fyrir flestar tegundir verkefna.

Bílarnir eru öflugir með 1-3 rafmótora eftir þyngd og stærð sem skila allt að 666 hestöflum og toga allt að 2400 Nm en hámarkstog rafmagnsbíla kemur strax inn og helst í hámarki yfir allt aflsviðið. Rafhlöðurnar rúma frá 265 kWst til 540 kWst. Eigin þyngd bílanna eykst aðeins um 2 tonn tonn með rafhlöðunum eftir að búið er að taka tillit til þess að þungir hlutir fara út á móti eins og dísilvél, olíutankar og olían í tönkunum. Reglugerðir á Íslandi veita síðan rafknúnum vörubílum undanþágu upp á 1 tonn í aukinn farm fyrir tilteknar gerðir vörubíla en nánari upplýsingar veita sérfræðingar Veltis.

Allar tegundir ábygginga eru fáanlegar á Volvo rafmagnsvörubílana og þeir henta því vel í fjölbreytt verkefni, þar á meðal vöruflutninga, vöru- og póstdreifingu, sorphirðu, gámaflutninga, kranavinnu, jarðvegsflutninga og margvíslega byggingarvinnu. Verkefni eins og þessi eru oftar en ekki innan ákveðinna svæða eða milli svæða með akstursvegalengdum innan 300 km, sem gerir þau sérstaklega hentug fyrir rafknúna vörubíla.

Ráðgjöf sérfræðinga Veltis við mat á akstursleiðum

Sérfræðingar Veltis hafa mikla þekkingu á rafmagnsvörubílum og með aðstoð hugbúnaðarlausna frá Volvo Trucks er hægt að reikna nákvæmlega hvernig rafmagnsvörubíll getur hentað í tiltekin verkefni. Með hermilíkani Volvo Trucks er hægt að skoða hvaða akstursleiðir henta best fyrir rafmagnsvörubíla. Leiðirnar er þá hægt að velja með það í huga að oftast verði bílarnir hlaðnir í lok vinnudags yfir kvöld og nótt og þeir fullhlaðnir að morgni. Á meira krefjandi leiðum verða hraðhleðslustöðvar notaðar til að skjóta raforku inn á bílana þegar færi gefst.

Nú þegar fyrstu rafknúnu Volvo vörubílarnir eru komnir til Íslands hafa viðeigandi akstursleiðir og flutningaverkefni verið valin þar sem hentugt er að byrja. Verkefnið verður mikill lærdómur um hvernig best er að haga uppsetningu hleðsluinnviða fyrir þungaflutningabíla og hvernig hleðsla þeirra geti átt sér stað með núverandi dreifikerfi raforku og frekari uppbyggingu hraðhleðslunets.

Stjórnvöld bjóða ívilnanir vegna kaupa á vistvænum ökutækjum og fjármögnunarfélög bjóða hagkvæmari græna fjármögnun. Veltir býður ráðgjöf í samvinnu við Volvo Trucks þar sem metnar eru vænlegar akstursleiðir og hver sparnaðurinn er mælt á kvarða heildarrekstrarkostnaðar (Total Cost of Ownership) á að keyra á rafmagni miðað við akstur á dísilolíu.

Veltir hefur einnig byggt upp sérfræðiþekkingu í hleðslulausnum fyrir rafmagnsvörubíla og býður Veltir alverktöku við uppsetningu hleðsluinnviða hjá fyrirtækjum.

Loftslagsskuldbindingar Íslands kalla á tafarlausar aðgerðir

Ísland hefur skrifað undir alþjóðlegar skuldbindingar um að draga úr kolefnislosun á hverju ári til ársins 2030, sett enn metnaðarfyllri landsmarkið fyrir sama ár og lögfest að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Ísland upplifði bakslag árið 2021 skv. bráðabirgðatölum frá Umhverfisstofnun þegar losun jókst um 1,9%.

Það segir okkur að það er stórt verkefni fram undan og okkur liggur mikið á,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í viðtali við RÚV 16. september 2022.

Á vef RÚV þann 20. apríl 2023 segir í tilefni birtingar á landsskýrslu Umhverfisstofnunar um losun;

Ísland nær ekki að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar í loftslagsmálum, samkvæmt nýrri skýrslu. Framreiknaðar losunartölur eru tvöfalt hærri en markmið ríkisstjórnarinnar. Umhverfisráðherra á von á stórum skrefum í nýrri aðgerðaráætlun.

Engin ein lausn er á þessum málum, heldur þurfi samvinnu margra til. Ekki síst atvinnulífsins, en almennings líka. Vinnan taki tíma en hún hefur gengið vel“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Á vef Orkusjóðs í apríl 2023 segir;

Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum um það hvernig við náum metnaðarfullum markmiðum okkar í loftslagsmálum. Orkuskiptin eru nauðsynlegur þáttur í þeirri vegferð og þurfa að komast strax til framkvæmda. Það þarf að auka enn frekar slagkraft frumkvöðla í þessum málum,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og hvetur fólk af öllum kynjum til að kynna sér sjóðinn.

Náist umrædd markmið ekki þýðir það umtalsverð fjárútlát á næstu árum fyrir ríkissjóð við kaup á losunarheimildum á alþjóðlegum mörkuðum. Aðeins örfá ár eru til stefnu sem kallar á tafarlausar og metnaðarfullar aðgerðir í samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs.

Vegna mikilvægis þess að Ísland standi við skuldbindingar sínar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og til að auka orkuöryggi á Íslandi hafa stjórnvöld í bígerð að liðka til við kaup á rafknúnum vörubílum með tækjakaupastyrk enda eru þeir enn sem komið er dýrari en sambærilegir dísilvörubílar. Líklegt er að auglýsing um styrkveitingar verði birt fljótlega.

Gríðarlegur ávinningur af þungaflutningum beint á rafmagn

Það skapar gríðarlegan ávinning að færa þungaflutninga beint yfir á íslenskt rafmagn, bæði fyrir notendur, rekstraraðila og íslenskt samfélag. Rafmagn beint á ökutæki er lang orkunýtnasta leiðin.

 • Lægra og stöðugra orkuverð
 • Betri orkunýtni
 • Lengri nýtingartími bílanna vegna styttri þjónustutíma rafmagnsvörubíla
 • Lengri nýtingartími vegna mögulegrar notkunar á kvöldin og snemma morguns sökum minni NOx- og sótmengunar og minni hávaða
 • Betra vinnuumhverfi fyrir bílstjóra vegna minni hávaða og titrings
 • Minni koltvísýringslosun sem styður við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og hjálpar fyrirtækjum að ná sjálfbærnimarkmiðum sínum
 • Betri loftgæði vegna engrar NOx- og sótmengunar
 • Minni hávaðamengun sem bætir lífsgæði í þéttbýliskjörnum en gerir um leið kleift að nota þungaflutningabíla utan dagvinnu
 • Orkusjálfstæði og orkuöryggi fyrir Íslendinga
 • Minni virkjanaþörf eða meiri orka verður til reiðu fyrir aðra geira atvinnulífsins
 • Betri nýting á dreifikerfi raforku um allt land þar sem hleðsla rafknúinna ökutækja mun að miklu leiti fara fram á kvöldin og nóttunni þegar lægð er í raforkunotkun
 • Styrkir hraðhleðslunet fyrir rafknúin ökutæki um allt land því fólksbílar geta auðveldlega notað sömu hleðslustöðvar og rafknúnir vörubílar
 • Sterkari ímynd Íslands sem land endurnýjanlegrar orku, hreins lofts og ósnortnar náttúru

Stór hluti þungaflutninga á Íslandi getur farið strax á rafmagn

Hleðslan byggir á sömu tækni og hleðsla fólksbíla. Hleðslustöðvar til uppsetningar á vegg eða staurum t.d. á starfsstöðvum fyrirtækja eru 22 kW (AC) fyrir minni vörubíla af gerðinni FL og FE sem geta borið allt að 26 tonn sem þýðir hleðslutíma til að fullhlaða allt að 7,4 klst. Fyrir FM, FMX og FH gerðirnar er um að ræða 43 kW (AC) sem þýðir hleðslutíma til að fullhlaða allt að 9,5 klst. Í báðum tilvikum dugir því nóttin vel til að fullhlaða vörubílana.

Ef skjóta þarf inn á þá orku yfir daginn þá taka þeir við hraðhleðslu (DC). 16 tonna vörubílarnir taka við allt að 150 kW hraðhleðslu (DC) við allt að 400-750 volta spennu og þeir stærri taka við allt að 250 kW (DC) við allt að 550-750 volta spennu.

Öflug rafhlaða og mikil hleðslugeta þýðir að hægt er að ná hleðslu á rafhlöðurnar sem dæmi á stærri vörubílunum sem dugar til 110 km viðbótaraksturs miðað við að raforkunotkun sé um 170 kWst per 100 km á 45 mínútum ef hlaðið er í hraðhleðslustöð sem gefur 250 kW.

Það þýðir í raun að drægni stórs þungaflutningabíls yfir daginn sem notar um 170 kWst per 100 km er um 410 km ef reiknað er með að hlaða einu sinni yfir daginn í 45 mínútur. Það gerir kleift að færa þungaflutninga yfir á rafmagn í öllum þéttbýliskjörnum og í allt að 200 km radíus út frá þeim miðað við akstur fram og til baka með hraðhleðslu að lágmarki einu sinni í 250 kW stöð t.d. í hvíldartíma bílstjóra. Auka má drægni enn frekar ef skotið er inn á bílinn í hraðhleðslu t.d. í kaffihléi.Brimborg reisir háhraða hleðslustöð fyrir allar gerðir rafknúinna ökutækja

Mikilvægt er að byggja hratt upp innviði fyrir rafknúna vörubíla og aðra rafbíla. Því hefur Brimborg hafið undirbúning að stóru verkefni í þá veru. Fyrsta stöðin er háhraða hleðslustöð við Flugvelli 8 í Reykjanesbæ fyrir allar gerðir rafknúinna ökutækja, meðal annars vörubíla. Um er að ræða háhraða stöð af nýrri og stærri gerð en áður hefur sést á Íslandi og hún uppfyllir kröfur meðal annars um hærri spennu rafmagnsvörubíla (allt að 920 volt), stöðin sjálf er allt að 600 kW og við hana eru tengdir hleðslustaurar sem geta annað 8 bílum í einu.

Hönnun stöðvarinnar miðar að því að geta þjónað annars vegar atvinnubílum s.s. stærri flutningabílum, léttari sendibílum, leigubílum, stórum og smærri rútum og hins vegar einkabílum íbúa og ferðamanna á eigin bílum og bílaleigubílum á leið í útleigu og skil frá erlendum og innlendum ferðamönnum. Stöðin er hönnuð með það í huga að aðgengi bíla af öllum stærðum sé sérstaklega gott og meðal annars fyrir hreyfihamlaða.


 • Verkstæði, varahlutir og söludeild tækja: 510 9100
 • Netfang: veltir@veltir.is
 • Kt.: 701277-0239
 • VSK.NR.: 11650

Veltir er Volvo atvinnutækjasvið Brimborgar og er til húsa í Hádegismóum 8, Árbæ. Veltir sér um þjónustu og sölu fyrir Volvo vörubíla, Volvo vinnuvélar, Volvo rútur og strætisvagnar, Volvo Penta bátavélar og Renault vörubíla.  Einnig er Veltir þjónustu- og söluaðili fyrir Hiab hleðslukrana, Wille fjölnotavélar, Zetterbergs ábyggingar, Reisch tengivagna, Joab ábyggingar, Tyllis ábyggingar, Mahlers mokstursbúnað, Skab vörukassa, Steelwrist rótótilt, Holms sópa og snjótennur og Dieci skotbómulyftara. Vörubíla og rútuverkstæði Veltis og vélaverkstæðis Veltis sér um þjónustu við Volvo atvinnutæki, Renault vörubíla og Hiab hleðslukrana. Vörubílar, sendibílar, rútur, vagnar fá olíuþjónustu og smur, dekk og dekkjaþjónustu, bremsur og bremsuþjónustu, vagnaþjónustu, WABCO vagna varahluti, kælikerfisþjónustu, hjólastillingu og LED vinnuljós á bíla og vélar hjá Veltir Xpress verkstæði á Hádegismóum 8 í Árbæ.  Veltir Xpress annast einnig ísetningar, prófanir, skoðanir og innsiglingu á ökuritum og stillingar hraðatakmarkara. 

© Höfundarréttur Veltir  |  PersónuverndSkilmálar  |  Veftré

Vefspjall