Flýtilyklar
Íslandsmet í afhendingu vörubíla til eins viðskiptavinar
Á dögunum setti Veltir Íslandsmet í afhendingu vörubíla til eins viðskiptavinar. Það var Eimskip sem fékk afhenta 12 Volvo vörubíla, sem er stærsta einstaka afhending til eins viðskiptavinar. Með þessari viðamiklu endurnýjun eykur Eimskip afkastagetu sína en ekki síður hagkvæmni og sveigjanleika í flutningarekstri sínum um allt land með nýjustu og sparneytnustu kynslóð vöruflutningabíla frá Volvo Trucks.
Eimskip er leiðandi afl í íslenskum flutningum
Eimskip er eitt stærsta og elsta flutningafyrirtæki landsins, með starfsemi á Íslandi og víða um heim. Fyrirtækið rekur öflugt net flutninga, bæði á sjó og landi. Nýju bílarnir leysa af sjóflutninga umhverfis landið og munu sinna dreifingu á vörum fyrir íslensk fyrirtæki. Endurnýjun á bílaflota fyrirtækisins styður áframhaldandi markmið Eimskips um öryggi og áreiðanleika í vöruflutningum.

12 öflugir Volvo vörubílar
Vörubílarnir sem Eimskip valdi eru af fjórum gerðum, allir mjög öflugir og sérútbúnir fyrir krefjandi íslenskar aðstæður.
Til afhendingar voru fjölbreyttir og sérútbúnir vörubílar frá Volvo Trucks. Fyrst ber að nefna tvo Volvo FM 6x2, 460 hestöfl, útbúnir vörukassa með lyftu og kælivél, sem nýtast sem dreifingarbílar fyrir Selfoss og Reykjavík. Þá voru afhentir tveir Volvo Aero FH 6x2 dráttarbílar, 500 hestöfl, sem ætlaðir eru til dreifingar í Reykjavík. Þá voru tveir Volvo Aero FH 6x4, 500 hestöfl, með gámalyftu sem verða notaðir í verkefni í höfuðborginni. Að lokum voru afhentir sex afar öflugir Volvo Aero FH16 6x4 dráttarbílar, 600 hestöfl, sem ætlaðir eru til almennra flutninga um allt land og útbúnir til að standast íslenskar aðstæður.
Allar bifreiðarnar eru mjög vel búnar með nýjustu öryggistækni, hámarks sparneytni og umtalvert lægri losun á koltvísýring sem skilar bæði betri rekstrarárangri og aukinni umhverfisvænni nýtingu.
„Við þökkum Eimskip fyrir viðskiptin. Það var virkilega gaman að sjá hversu vel starfsfólki Eimskip og Veltis tókst að vinna þetta stóra verkefni saman fljótt og örugglega, sem endaði með glæsilegri afhendingu á 12 Volvo vörubílum.“ segir Marteinn Jónsson, framkvæmdarstjóri Veltis.

Á myndinni má sjá 8 af þeim 12 bílum sem Eimskip fékk afhenta.
Sérfræðiþekking Veltis í atvinnubílum og atvinnutækjum
Veltir og Brimborg hafa verið í fararbroddi bíla- og tækjaumboða í atvinnubílum- og tækjum og lagt mikið í þjálfun starfsmanna og uppbyggingu búnaðar til þjónustu þeirra. Það tryggir hátt þjónustustig og framúrskarandi nýtingartíma atvinnubíla.

