Flýtilyklar
Volvo Trucks fær fimm stjörnur hjá Euro NCAP
Í fyrsta skipti hafa Evrópsku neytendaprófunarsamtökin Euro NCAP metið öryggi þungaflutningabíla. Söluhæstu gerðir Volvo, Volvo FH og Volvo FM, fengu báðar hæstu einkunn, fimm stjörnur í fyrstu öryggisprófun Euro NCAP fyrir flutningabíla. Volvo FM skoraði einnig hæstu heildareinkunn meðal allra prófaðra flutningabíla. Samtökin veittu einnig báðum Volvo módelunum City Safe verðlaunin sín.
Volvo trucks leiðandi í öryggi
„Þessi framúrskarandi niðurstaða fyllir mig stolti, þar sem hún staðfestir leiðandi stöðu Volvo Trucks í öryggi,“ segir Roger Alm, forseti Volvo Trucks. Hann bætir við: „Öryggi er grunngildi fyrir okkur og lykilþáttur í arfleifð okkar. Öryggi hefur verið leiðarljós okkar frá stofnun fyrirtækisins – og með hverri nýrri vörulausn gerum við flutningabíla okkar enn öruggari.“
Fimm stjörnu einkunn Euro NCAP sýnir framúrskarandi frammistöðu Volvo í flokkum eins og akstursaðstoð og árekstrarvörnum, sem eykur umferðaröryggi bæði fyrir ökumanninn og aðra vegfarendur. Auk þess uppfylla báðir Volvo bílarnir svokölluð City Safe skilyrði, þökk sé góðu útsýni úr ökumannsrými og virkni öryggiskerfa Volvo, sem eru hönnuð til að vernda vegfarendur í þéttbýli.
„Þetta er staðfesting á stöðugri þróun okkar á öryggisbúnaði, þar sem við förum lengra en löggjöf krefst, í átt að framtíðarsýn okkar um engin slys þar sem flutningabílar okkar koma við sögu,“ segir Anna Wrige Berling, forstöðumaður umferðar- og vöruöryggis hjá Volvo Trucks. Hún bætir við: „Euro NCAP einkunnir munu hjálpa viðskiptavinum í ákvarðanatöku sinni og hvetja framleiðendur til að halda áfram að bæta öryggi.“
Skoðið myndböndin:
Staðreyndir um Euro NCAP
Evrópska nýja bílamatsskráin (Euro NCAP), sem hefur aðsetur í Belgíu, var stofnuð árið 1996 og varð fljótt evrópskur staðall í öryggismati fólksbíla. Hún nýtur stuðnings margra evrópskra stjórnvalda, þar á meðal Evrópusambandsins.
Varðandi prófanir á flutningabílum fékk hvert öryggiskerfi einkunn, sem var síðan lögð saman eftir mismunandi flokkum. Þessar einkunnir voru notaðar til að reikna út stjörnugjöf bílsins, frá einni upp í fimm stjörnur.
Prófun Euro NCAP á flutningabílum fól í sér eftirfarandi þætti:
- Öruggur akstur: Eftirlit með ökumanni, útsýni (beint og óbeint) og aðstoðarkerfi ökutækis (t.d. hraðaaðstoð).
- Árekstrarvarnir: Árekstrar framan á (bifreið, gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk), árekstur við lágan hraða og árekstur vegna aksturs út af akrein.
- Eftir árekstur: Upplýsingar fyrir björgunaraðila.
Markmið Euro NCAP er að auka umfang prófana smám saman, meðal annars með því að bæta við öryggismati vegna árekstra í framtíðinni, auk þess að prófa flutningabíla fyrir mismunandi tegundir flutninga.